11.08.2010 07:01

Ýmsar fréttir

Það er alltaf nóg fyrir stafni hjá Lækjamótsfjölskyldunni. Ísólfur er nýkominn heim eftir að hafa verið að dæma Norðurlandamótið í hestaíþróttum og fer svo til Danmerkur um helgina að halda reiðnámskeið. Smíðarnar á nýja íbúðarhúsinu og hesthúsinu ganga vel og reiðhrossin flest að komast í form.

Hin árlega kvennareið er ný afstaðin. Riðið var um Vesturhópið og var víkingaþema í ár. Vigdís, Sonja og Elín skelltu sér með og skemmtu sér konunglega.

Stilltar og prúðar í upphafi reiðar. Sonja á Vár, Elín á Brellu og Vigdís á Sögn.              Nú færist heldur fjör í leikinn emoticon

Á Lækjamóti var heilmikil sónarskoðun á föstudaginn var. 62 hryssur voru ómskoðaðar en þær tilheyrðu 4 hópum. Þetta þýddi mikil hlaup fyrir heimilsfólkið við að smala, ná í hryssur og folöld, sortera og smala meira. En allt gekk nú vel og tókst að fækka hryssunum á jörðinni svo um munaði.


Af okkar hryssum þá eru þær Elding frá Stokkhólma, Valdís frá Blesastöðum og Von frá Stekkjarholti fylfullar við Vilmundi frá Feti.

Vilmundur frá Feti

Rauðhetta frá Lækjamóti og Hrönn frá Leysingjastöðum II eru fylfullar við Blysfara frá Fremra-Hálsi.

Blysfari frá Fremra-Hálsi


Hrönn frá Leysingjastöðum II                                                                            Rauðhetta frá Lækjamóti

Og Kosning frá Ytri-Reykjum er fengin við Krafti frá Efri-Þverá.


Kraftur frá Efri-Þverá

Það er ýmislegt framundan enda hestaheimurinn heldur að lifna við. Næstu helgi heldur hestamannafélagið okkar, Þytur, Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna og leggur heimilisfólkið á Lækjamóti sitt af mörkum við þá vinnu sem í því felst. Í næstu viku er svo síðsumarsýning á Blönduósi þar sem stefnt er á að sýna nokkrar hryssur. Aðra helgi er svo Opið íþróttamót Þyts þannig það er af nægu að taka á næstunni.

Sonja er nú að vinna í spennandi verkefni í tengslum við sitt nám en hún er að taka saman þekkingu og rannsóknir sem hafa verið gerðar á hinni hvimleiðu bakteríu Streptococcus zooepidemicus sem flestir hestamenn eru farnir að kannast við. Hver veit nema eitthvað athyglisvert komi útúr þeirri vinnu.

Látum þetta gott heita af fréttum í bili
Bestu kveðjur frá Lækjamóti

08.08.2010 19:07

Lækjamót II að myndast

Það hefur líklega ekki farið fram hjá glöggum ferðalöngum á leið um Vestur-Húnavatnssýslu að íbúðarhús er tekið að myndast á Lækjamótsjörðinni. Ísólfur og Vigdís eru semsagt að byggja hús og munu flytja inn í vetur þegar allt er tilbúið. Með samstilltu átaki góðra smiða og hjálpsamra fjölskyldumeðlima hefur verið góður gangur á framkvæmdunum síðustu daga eins og sjá má á myndunum.






03.08.2010 10:50

Sónarskoðun á föstudag



Tíminn flýgur áfram enda sumarið yndislegur tími. Hjá okkur hafa í sumar verið dágóður hópur af hryssum og stóðhestarnir fjórir Vilmundur, Kraftur, Sindri og Blysfari haft nóg að gera.

Föstudaginn 6. ágúst nk. kl. 13:00 hefst sónarskoðun á hryssum sem voru hjá Vilmundi frá Feti. Að því loknu verður sónað frá Krafti frá Efri Þverá og Sindra frá Leysingjastöðum.  Allar nánari upplýsingar hjá Þóri í s. 899-9570

21.07.2010 09:04

Stóðið


Þá eru seinustu folöldin á bænum loksins komin í heiminn. Þær stöllur Rödd og Toppa voru seinastar en köstuðu báðar merfolöldum og því er ekki hægt að kvarta þótt biðin hafi verið heldur löng. Í heildina fæddust okkur 4 hestfolöld og 10 merfolöld og að auki nokkur sem eru í eigu kunningja. Við erum ansi sátt við útkomuna enda er venjan að merfolöldin séu í miklum minnihluta hjá okkur.


Þær eru ansi fallegar í stóði þessar tvær. Faxprúðar og svo er Toppa með þennan flotta lit og Rödd alltaf hágeng.

Stóðið var rekið heim í gær og var staðan heldur verri, hvað pestina varðar, heldur en við bjuggumst við. Fylgst hafði verið með heilsufari á stóðinu en svo þegar það var rekið af stað kom fram mikill hósti og hor. Því var endanlega tekin sú ákvörðun að ekki verður rekið fram á Víðidalstunguheiði í ár heldur verður stóðið heima svo hægt sé að gefa þeim auga. Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera á afar grasmikilli jörð svo það kemur ekki að sök þótt allt verði heima. En stóðréttirnar koma til með að vera einkennilegar.


Spjör undan Hágangi og Toppu                                  Hor í nös emoticon


Mertryppi undan Baugi frá Víðinesi, Hnokka frá Þúfum                      Gott að velta sér :)

og tvær undan Sindra frá Leysingjastöðum.


Nú þegar breyttar reglur eru varðandi einstaklingsmerkingar hrossa þá höfum við tekið upp nýtt frostmerki. Það er ómögulegt að vera án frostmerkis í stóðréttum og auðveldar þetta einnig almennt hrossarag hér á bænum því með merkinu er tölustafur sem táknar ártal og annar sem táknar númer einstaklingsins.

Hér má sjá nýja frostmerkið LM en veturgömlu tryppin eru fyrst til þess að bera þessa nýjung.

18.07.2010 13:28

Ný hryssa í 1.verðlaun

Nú á dögunum eignaðist Lækjamótsbúið nýja 1.verðlauna hryssu þegar Truflun frá Bakka í eigu Ísólfs og Vigdísar fór í 8.01 í aðaleinkunn á kynbótasýningunni á Akureyri. Truflun er 5 vetra gömul undan Þyt frá Neðra-Seli og Krummu frá Bakka. Hún var keypt sem efnistryppi þá að fara á fjórða vetur. Hennar aðall í hæfileikum er skeiðið en fyrir það hlaut hún 8.5. Hennar hæsta einkunn er 9 fyrir fótagerð.



Truflun frá Bakka

Á þessari sýningu sýndi Ísólfur einnig Aþenu frá Víðidalstungu og Mynt frá Gauksmýri.  Aþena er hágeng klárhryssa sem hlaut 8.5 fyrir tölt, fegurð í reið, höfuð, bak og lend og fótagerð. Hún hlaut 7.82 í aðaleinkunn. Hún er undan Illingi frá Tóftum og
er í eigu Ingvars Jóns Jóhannssonar. Mynt er undan Roða frá Múla og í eigu Sigríðar Lárusdóttur. Mynt er afar vel sköpuð með 8.29 fyrir byggingu og 7.88 í aðaleinkunn.

Aþena og Mynt

09.07.2010 09:45

Fjör

Ræktunarfólk tók heldur betur við sér eftir að eigandi Blysfara, Jón Benjamínsson, ákvað að hafa folatollinn frían fyrir 1.verðlauna hryssur í sumar og það fylltist undir Blysfara á örfáum dögum. Væntanlega verður sónað frá honum í ágústbyrjun og ætti þá að vera hægt að bæta inn á hann eftir það. Nú eru 16 fyrstu verðlauna hryssur hjá honum, auk fjölda annarra góðra hryssna, þannig það horfir vel með árganginn 2011.

Blysfari var kátur þegar honum var sleppt í fríðan hryssuhópinn og koma hér nokkrar myndir frá því.


Blysfari hleypur glaður í hagann með Borgavirkið í baksýn og hryssuhóp framundan



Blysfari hefur nóg fyrir stafni á næstunni og vindir hann sér beint í verkið


Rauðhetta frá Lækjamóti tók því bara rólega með Seiðssoninn sinn.

Nú er í nægu að snúast í eftirliti enda í heildina 76 hryssur hjá þeim Blysfara, Vilmundi, Krafti og Sindra á landareigninni og fjöldi af folöldum sem eru að kanna heiminn. Daglega er að sjálfsögðu eftirlit með hólfunum, gengið um og talið og allt sem því fylgir. En það skemmtilega er líka að hólfin sjást öll út um glugga á bænum og því sést fljótt ef eitthvað óeðlilegt atferli er.

03.07.2010 11:16

Blysfari frá Fremra-Hálsi

Blysfari frá Fremra-Hálsi gerði það gott á kynbótasýningunni á Vindheimamelum sem kláraðist nú í dag. Blysfari er skrefmikill og hágengur 5 vetra alhliðahestur og fór í 8.31 í aðaleinkunn. Blysfari er undan Arði frá Brautarholti og 1.verðlauna hryssunni Frigg frá Fremra-Hálsi. Blysfari er hæst dæmda afkvæmi Arðs enn sem komið er. Við höfum miklar mætur á Blysfara en Friðrik frumtamdi hann og þjálfar og Ísólfur sýndi. Ræktandi og eigandi Blysfara er Jón Benjamínsson. Geðslagið er frábært og hreyfingarnar einstakar og hefur frá upphafi bara verið gaman að fylgjast með honum í tamningaferlinu.






Blysfari verður í hólfi á Lækjamóti það sem eftir lifir sumars. ATH! FOLATOLLURINN ER FRÍR FYRIR 1.VERÐLAUNA HRYSSUR! - eins og pláss leyfir. Fyrir 1.verðlauna hryssur kostar 25 þúsund með vsk. Innifalið í því er hagagjald og ein sónarskoðun. Fyrir aðrar hryssur kostar folatollurinn 70 þúsund með hagagöngu og einni sónarskoðun en án vsk. Athugið að 1.verðlauna hryssur ganga fyrir.

Tekið verður á móti hryssum þriðjudaginn 6. júlí, eða eftir samkomulagi. Hesturinn verður settur í miðvikudaginn 7. júlí. Hægt verður að bæta við hryssum hjá Blysfara í sumar, eftir samkomulagi.

Upplýsingar og pantanir á [email protected] eða hjá Friðriki í síma 899-7222 eða Sonju í síma 866-8786



IS-2005.1.25-038 Blysfari frá Fremra-Hálsi

Sýnandi: Ísólfur Líndal Þórisson

Mál (cm):

140   129   137   64   142   36   45   43  
6,3   30,0   18,5  

Hófa mál:

V.fr. 9,2   V.a. 9,2  

Aðaleinkunn: 8,31



Sköpulag: 8,11

Kostir: 8,45


Höfuð: 7,5
   2) Skarpt/þurrt   H) Smá augu   K) Slök eyrnastaða  

Háls/herðar/bógar: 8,0
   5) Mjúkur   7) Háar herðar   D) Djúpur  

Bak og lend: 8,0
   8) Góð baklína  

Samræmi: 8,5
   4) Fótahátt   5) Sívalvaxið  

Fótagerð: 7,5
   6) Þurrir fætur   J) Snoðnir fætur  

Réttleiki: 7,5
   Afturfætur: 1) Réttir  
   Framfætur: D) Fléttar  

Hófar: 9,0
   1) Djúpir   4) Þykkir hælar   7) Hvelfdur botn  

Prúðleiki: 8,5

Tölt: 8,5
   2) Taktgott   3) Há fótlyfta   4) Mikið framgrip  

Brokk: 9,0
   4) Skrefmikið   5) Há fótlyfta  

Skeið: 8,0
   4) Mikil fótahreyfing  

Stökk: 8,5
   2) Teygjugott   4) Hátt  

Vilji og geðslag: 8,5
   2) Ásækni   5) Vakandi  

Fegurð í reið: 8,5
   3) Góður höfuðb.   4) Mikill fótaburður  

Fet: 8,0
   1) Taktgott  

Hægt tölt: 8,5

Hægt stökk: 8,0


01.07.2010 16:14

Efnilegir!

Guðmari Hólm er hestabakterían í blóð borin. Á dögunum fór hann í sín fyrstu hestakaup þegar hann skipti svörtum fola fyrir skjóttan hest við Nökkva Þór Guðmarsson vin sinn. Þeir félagar eru góðir að leika sér saman enda báðir dolfallnir ungir hestamenn.


Hæstánægðir með hestakaupin                         Í hestaleik í kerrunni

 
Í leik með nýju hestana sína.

Í vikunni fóru fram reiðpróf hjá þeim sem voru á reiðkennaradeildinni í vetur og voru með hrausta hesta. Það er svo sem ekki til frásögu færandi fyrir okkur nema fyrir það að Guðmar fór á kostum. Þegar nemendur höfðu lokið sér af vildi Guðmar endilega líka fá að taka próf. Hann fer þá inn á völlinn og alveg upp á sitt einsdæmi hleypur hann reiðpróf líkt því sem reiðkennaraefnin höfðu nýlokið við. Hann hljóp stökk á hring, gerði krossgang og tók skeiðsprett. Þetta vakti mikla lukku í áhorfendabrekkunni og að loknu prófi fór Guðmar og ræddi við dómarana um árangurinn. Hér má sjá nokkrar myndir frá þessarri skemmtilegu uppákomu.

 
Krossgangur                                                               Hraðabreytingar


Stökk á hringnum                                      Guðmar þurfti að sjálfsögðu hliðvörð eins og aðrir


Sigurbjörn fer yfir prófið með Guðmari

En það er ekki bara Guðmar sem er efnilegur. Ísak Þórir er efnilegur markvörður og er nú farinn að æfa fótbolta með umf. Kormáki. Þar kynnist hann væntanlegum skólafélögum og nýtur sín vel.


Ísólfur, Vigdís, Ísak Þórir og Guðmar eru nú flutt frá Hólum á Lækjamót og flytja svo í nýja húsið þegar það er tilbúið. Sonja er komin í sumarfrí og Jónína Ósk frænka komin í sveitina þannig það er óhætt að segja að það sé líf og fjör á Lækjamóti.

27.06.2010 11:18

Stóðhestar 2010



Jæja, loksins kemur ný frétt! Ýmislegt er verið að brasa á Lækjamóti eins og fyrri daginn. Vinna í grunninum að nýja húsinu, áfram verið að smíða og vinna í nýja hlutanum af hesthúsinu, járningar og svo auðvitað hrossaræktin og vinna í kringum stóðhestahald og eftirlit. Sökum hóstapestarinnar ákváðum við að í ár yrðu ræktunarhryssurnar okkar heima, viljum ekki leggja á þær það álag sem fylgir flutningi. Svipuð stemning og í gamla daga, áður en akstur með stöku hryssu yfir landið þvert og endilangt kom til. Það ætti þó ekki að koma að sök þar sem við erum með góða hesta á okkar vegum í ár, þar á meðal tvo Landsmótssigurvegara. Þrír stóðhestar eru um þessar mundir í hólfi á Lækjamóti og mun sá fjórði væntanlega bætast við um eða eftir næstu helgi. Margar af okkar bestu hryssum eru þó ekki kastaðar en þær fara vonandi að drífa í því og komast því vonandi í hólf fyrr en seinna.



Vilmund frá Feti þarf vart að kynna fyrir hestamönnum. Hann er með 8.56 í aðaleinkunn og þar af 8.95 fyrir hæfileika og stóð efstur í flokki 5 vetra hesta á LM 2006. Hann er undan Orra frá Þúfu og Vigdísi frá Feti. Kynbótamat hans er hvorki meira né minna en 129! Gaman er að fylgjast með honum  í hryssum, en hann heldur vel utan um hópinn sinn og það er mikil ró yfir öllu. Engin læti eða slagsmál.



Sindri frá Leysingjastöðum II er einnig í hólfi á Lækjamóti. Hann hefur verið að gera það gott í keppni. Sigraði m.a töltkeppni Meistaradeildar KS 2010. Sindri hefur vakið mikla athygli fyrir einstakan fótaburð og fas. Stefnt var á að sýna hann og keppa á honum í sumar en ekkert varð úr sökum pestarinnar og því fór hann fyrr í hólf en áætlað var.



Kraftur frá Efri-Þverá fékk einnig frí frá reið fyrr en ætlað var og er kominn í hryssur. Kraftur er Landsmótssigurvegari í 4.vetra flokki frá Landsmótinu 2006. Faðir hans er Kolfinnur frá Kjarnholtum og móðir Drótt frá Kópavogi. Kraftur er með 8.37 í aðaleinkunn og þar af 8.48 fyrir hæfileika.

Blysfari frá Fremra-Hálsi kemur svo um næstu helgi en stefnt er á að fara með hann í dóm á Vindheimamelum nú í vikunni. Frekari upplýsingar um Blysfara munu birtast hér á síðunni í vikunni.

Endilega hafið samband ef þið viljið fá frekari upplýsingar um eitthvað í tengslum við stóðhestana. [email protected] eða í síma 899-9570.

Hér eru nokkrar myndir af makindalegum hryssum og folöldum sem eru í stóðhestahólfi á Lækjamóti.



Mikilvægt er að hafa gott eftirlit eftir öllum þeim hryssum sem eru nú í okkar umsjá. Þórir lítur hér eftir óköstuðu hryssunum en þar á meðal er Toppa frá Lækjamóti sem er fylfull við hinum unga albróður Vilmundar, Werner frá Feti.



Látum þetta gott heita að sinni.
Ræktunarkveðja frá Lækjamóti.

09.06.2010 11:58

Sonja í sýnatöku

Það hefur varla farið framhjá nokkrum að hóstapestin hefur lamað allt sem tengist hestum á Íslandi. Illa gengur að finna út úr því hvað veldur og það gerir marga hestamenn áhyggjufulla. Rannsóknir halda áfram og vonandi finnst út úr þessu. Á meðan er ekkert annað hægt að gera en að bíða og vona það besta.

Sonja, sem er að læra dýralækningar í Kaupmannahöfn,  talaði við kennara sinn í bakteríufræðum og gerði honum grein fyrir ástandinu. Hann sá það fljótt að það væri spennandi að taka sýni og sjá hvað kæmi fram. Það fór því svo að Sonja, sem átti leið til Íslands, tók sýni úr 44 veikum hrossum. Á mismunandi aldri og á mismunandi stöðum í veikinni. Sýnin voru sett í ræktun í dag og verður spennandi að sjá niðurstöðurnar. Sýnin verða svo fryst.

Skólinn vill fylgja með í sem flestu sem gerist og auka við sinn sýnabanka. Það eru til afar fá, ef nokkur, sýni úr íslenska hestinum við skólann og því verður þetta þá amk til þess að bæta bankann hjá skólanum. Ef eitthvað spennandi kemur út úr þessu er alveg eins líklegt að Sonja nýti sér þessa rannsókn sem lokaverkefni við skólann, þegar að því kemur. Ekki væri nú verra ef það fyndist eitthvað nýtt sem gerði okkur kleift að skilja sjúkdóminn betur. En það verður tíminn að leiða í ljós eins og annað.


Sonja undibýr sýnatöku.


Ánægð með horinn emoticon

31.05.2010 08:48

Folöld og fleiri folöld

Folöldunum hjá okkur á Lækjamóti fjölgar nú jafnt og þétt og er alltaf gaman að berja þau augum. Myndavélin var með í för nú á dögunum og notum við því tækifærið til að lífga uppá fréttasíðuna hjá okkur þar sem lítið annað gerist í hestamennskunni þessa dagana. Ansi hægt gengur að koma hrossunum í gang aftur eftir pestina en við látum reyna á þolinmæðina fremur en að láta reyna á velferð hrossanna.


Von Kraftsdóttir                                                 Móðurást Eldingar í garð Hraunars Kraftssonar.


Við getum ekki annað sagt en að við séum hæstánægð með fyrstu afkvæmin sem við fáum undan Blysfara frá Fremra-Hálsi. Þau eru létt á bolinn og sýna mikinn gang. Blysfari er 5 vetra og er í þjálfun hjá okkur. Hann er undan Arði frá Brautarholti og óhætt að segja að við bindum miklar vonir við hann. Blysfari er í eigu Jóns Benjamínssonar.

 
Það verður ekki af því skafið að ekkert folald hefur fengið jafn mikla athygli og þessi prins hér. Hann er undan Kappa frá Kommu sem gerði það nú aldeilis gott í kynbótadómi á dögunum og fór í 8.51 klárhestur. Móðirin er Dagrós frá Stangarholti og Sonja er stoltur eigandi folaldsins en hún sæddi hryssuna sjálf með dyggri aðstoð Höskuldar dýralæknis. Því er hægt að kalla þetta hestfolald hennar fyrsta dýralæknisverk. Folinn sýnir mikinn gang og eins og sést á myndunum töltir hann um hagann og eftirtektarvert hvað hann heldur töltinu upp í mikla ferð eins og sjá má á síðustu myndinni þar sem aðeins einn fótur nemur við jörðu og framgripið mikið. Bógastykkið er sérstaklega  vöðvað, skásett og fallegt og lendin öflug fyrir svona lítinn gutta. Vonir eru bundnar til þess að þetta hestfolald muni fá enn meiri athygli þegar hann eldist og ekki skemmir þessi flotti litur fyrir.

Látum þetta gott heita af folaldafréttum í bili.
Sumarkveðja frá Lækjamóti

24.05.2010 07:53

Nýjar stíur, ný folöld og nýr vegur :)

Það vantar ekki kraftinn á Lækjamóti en þessa dagana eru spennandi hlutir að gerast. Framkvæmdargleðin er í fullum gangi og tíminn vel nýttur í smíðar á stíum í hesthúsið. Búið er að smíða 10 einshestastíur sem koma sér vel þegar fjölgar á bænum en í sumar flytja Ísólfur, Vigdís, Ísak og Guðmar heim á Lækjamót. Nýtt íbúðarhús mun svo rísa á jörðinni og eru framkvæmdir að hefjast. Ekki þótti því úr vegi að taka fyrstu skóflustunguna um helgina og skála fyrir framtíðinni emoticon. Fleiri myndir má sjá undir maílok í myndaalbúmi en ýmislegt fleira var brallað skemmtilegt um helgina eins og sjá má á myndunum.


Þórir við eina af nýju stíunum í hesthúsinu sem hann er búin að smíða

Lömbin voru mörkuð og sett út um helgina svo allt lambfé er komið út á grænt gras


Mótorhjólið var tekið fram og keyrt um túnin

Stóðið var rekið heim og teknar úr folaldshryssurnar til að hafa í sérhólfi undir meira eftirliti

Síðan var aðeins stolist upp í gröfuna sem notuð er til að gera nýja veginn
 

Gengið niður að Miðdegishólnum þar sem nýja íbúðarhúsið á að rísa og fyrsta skóflustungan tekin

Sigurður og Ísak spila Kubb við Ísólf og James (Sigurður og Ísak unnu)

12.05.2010 05:26

Fyrsta folald ársins fætt á Lækjamóti

11. maí fæddist fyrsta folald ársins á Lækjamóti þegar hryssan Elding frá Stokkhólma kastaði fallegum mjóblésóttum hesti (verður líklega grár) undan Krafti frá Efri-Þverá. Hann hefur verið nefndur Hraunar. Þegar við komumst að taka myndir um helgina var komið annað Kraftsbarn í heiminn, rauðstjórnótt hryssa undan Vægð frá Lækjamóti sem hefur hlotið nafnið Von emoticon

góður sopinn

09.05.2010 15:19

Flensa og framkvæmdir

Síðustu vikur hafa verið erfiðar og ansi ólíkar því sem við eigum að venjast þar sem öll hrossin sem voru á húsi eru veik og því ekki í þjálfun. Þau sem eru búin að vera hóstandi hvað lengst eru búin að vera í rúmar fjórar vikur. Nú síðustu daga höfum við brugðið á það ráð að hafa þau sem allra mest úti undir beru lofti með von um að hreina loftið og sólin nái að hjálpa þeim að ná bata. Farið var um helgina með þrjár hryssur á Lækjamót frá Hólum og sleppt út í grashólf með heyrúllu. Þau virtust kunna því mjög vel og röltu um hólfið, átu hey eða lágu makindaleg í veðurblíðunni.


Geldingar í sérhólfi og svo hryssur í annarri girðingu og nóg af heyji



Hryssuhópurinn hafður sér, þær voru ansi sáttar við þetta fyrirkomulag

Og þar sem að það er byrjun maí þá bíðum við að sjálfsögðu spennt eftir að folöldin líti dagsins ljós en þær fyrstu ættu að fara að kasta á hverri stundu. Vegna pestarinnar þorir maður þó ekkert að fara til þeirra og klappa þeim af ótta við að smita þær en hægt var að laumast með myndavélina og smella af bumbumyndum emoticon 
 
Elding f. Stokkhólma fylfull við Kraft f. Efri -Þverá

Það er samt ekki hægt að segja að Lækjamótsfólkið sitji auðum höndum þrátt fyrir pest en tíminn er vel nýttur í að bæta við fleiri stíum í hesthúsið. Helgin fór í það að koma inn gúmmímottum í stíurnar, en gúmmí þetta er fengið frá Kárahnjúkum þar sem það var notað til að ferja grjót úr göngunum. Það ætti því að þola hestana okkar enda tók á að saga það í sundur og bera inn!


Þórir vígalegur með slípirokkinn tilbúinn að hefjast handa

Þetta var engin léttavara...

alveg búnir á því...

og þá var fundin upp hjólbaran sem létti nú töluvert lífið emoticon



03.05.2010 09:14

Félagar bregða á leik

Til gamans eru hér myndir af Friðriki og Degi frá Hjaltastaðahvammi sem voru teknar í byrjun apríl s.l, skömmu áður en kvefpestin fór að hrjá hrossin okkar.
Þeir félagar eru farnir að æfa að ríða berbakt og beislislaust sem er einkar skemmtilegt en reynir mikið á samspil manns og hests og krefst mikils gagnkvæms trausts. Friðrik og Dagur eru bestu mátar og þykir bæði manni og hesti þetta vera ákaflega skemmtileg viðbót við þjálfunina.


Dagur bíður rólegur á meðan Friðrik flýgur á bak.                           Flottur á töltinu þrátt fyrir að vera beislislaus.


Brokk bæði með reisingu og í slökun með felldan háls. Með sæti og rödd getur Friðrik stjórnað hvernig Dagur beitir sér.


Dagur er með frábært jafnvægi á stökki og ekki ber á öðru en Friðrik sé það líka.
Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 371
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 220081
Samtals gestir: 35561
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 03:52:16
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]