31.05.2010 08:48

Folöld og fleiri folöld

Folöldunum hjá okkur á Lækjamóti fjölgar nú jafnt og þétt og er alltaf gaman að berja þau augum. Myndavélin var með í för nú á dögunum og notum við því tækifærið til að lífga uppá fréttasíðuna hjá okkur þar sem lítið annað gerist í hestamennskunni þessa dagana. Ansi hægt gengur að koma hrossunum í gang aftur eftir pestina en við látum reyna á þolinmæðina fremur en að láta reyna á velferð hrossanna.


Von Kraftsdóttir                                                 Móðurást Eldingar í garð Hraunars Kraftssonar.


Við getum ekki annað sagt en að við séum hæstánægð með fyrstu afkvæmin sem við fáum undan Blysfara frá Fremra-Hálsi. Þau eru létt á bolinn og sýna mikinn gang. Blysfari er 5 vetra og er í þjálfun hjá okkur. Hann er undan Arði frá Brautarholti og óhætt að segja að við bindum miklar vonir við hann. Blysfari er í eigu Jóns Benjamínssonar.

 
Það verður ekki af því skafið að ekkert folald hefur fengið jafn mikla athygli og þessi prins hér. Hann er undan Kappa frá Kommu sem gerði það nú aldeilis gott í kynbótadómi á dögunum og fór í 8.51 klárhestur. Móðirin er Dagrós frá Stangarholti og Sonja er stoltur eigandi folaldsins en hún sæddi hryssuna sjálf með dyggri aðstoð Höskuldar dýralæknis. Því er hægt að kalla þetta hestfolald hennar fyrsta dýralæknisverk. Folinn sýnir mikinn gang og eins og sést á myndunum töltir hann um hagann og eftirtektarvert hvað hann heldur töltinu upp í mikla ferð eins og sjá má á síðustu myndinni þar sem aðeins einn fótur nemur við jörðu og framgripið mikið. Bógastykkið er sérstaklega  vöðvað, skásett og fallegt og lendin öflug fyrir svona lítinn gutta. Vonir eru bundnar til þess að þetta hestfolald muni fá enn meiri athygli þegar hann eldist og ekki skemmir þessi flotti litur fyrir.

Látum þetta gott heita af folaldafréttum í bili.
Sumarkveðja frá Lækjamóti
Flettingar í dag: 320
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 1775
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 227994
Samtals gestir: 37082
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 10:19:16
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]