27.06.2010 11:18

Stóðhestar 2010



Jæja, loksins kemur ný frétt! Ýmislegt er verið að brasa á Lækjamóti eins og fyrri daginn. Vinna í grunninum að nýja húsinu, áfram verið að smíða og vinna í nýja hlutanum af hesthúsinu, járningar og svo auðvitað hrossaræktin og vinna í kringum stóðhestahald og eftirlit. Sökum hóstapestarinnar ákváðum við að í ár yrðu ræktunarhryssurnar okkar heima, viljum ekki leggja á þær það álag sem fylgir flutningi. Svipuð stemning og í gamla daga, áður en akstur með stöku hryssu yfir landið þvert og endilangt kom til. Það ætti þó ekki að koma að sök þar sem við erum með góða hesta á okkar vegum í ár, þar á meðal tvo Landsmótssigurvegara. Þrír stóðhestar eru um þessar mundir í hólfi á Lækjamóti og mun sá fjórði væntanlega bætast við um eða eftir næstu helgi. Margar af okkar bestu hryssum eru þó ekki kastaðar en þær fara vonandi að drífa í því og komast því vonandi í hólf fyrr en seinna.



Vilmund frá Feti þarf vart að kynna fyrir hestamönnum. Hann er með 8.56 í aðaleinkunn og þar af 8.95 fyrir hæfileika og stóð efstur í flokki 5 vetra hesta á LM 2006. Hann er undan Orra frá Þúfu og Vigdísi frá Feti. Kynbótamat hans er hvorki meira né minna en 129! Gaman er að fylgjast með honum  í hryssum, en hann heldur vel utan um hópinn sinn og það er mikil ró yfir öllu. Engin læti eða slagsmál.



Sindri frá Leysingjastöðum II er einnig í hólfi á Lækjamóti. Hann hefur verið að gera það gott í keppni. Sigraði m.a töltkeppni Meistaradeildar KS 2010. Sindri hefur vakið mikla athygli fyrir einstakan fótaburð og fas. Stefnt var á að sýna hann og keppa á honum í sumar en ekkert varð úr sökum pestarinnar og því fór hann fyrr í hólf en áætlað var.



Kraftur frá Efri-Þverá fékk einnig frí frá reið fyrr en ætlað var og er kominn í hryssur. Kraftur er Landsmótssigurvegari í 4.vetra flokki frá Landsmótinu 2006. Faðir hans er Kolfinnur frá Kjarnholtum og móðir Drótt frá Kópavogi. Kraftur er með 8.37 í aðaleinkunn og þar af 8.48 fyrir hæfileika.

Blysfari frá Fremra-Hálsi kemur svo um næstu helgi en stefnt er á að fara með hann í dóm á Vindheimamelum nú í vikunni. Frekari upplýsingar um Blysfara munu birtast hér á síðunni í vikunni.

Endilega hafið samband ef þið viljið fá frekari upplýsingar um eitthvað í tengslum við stóðhestana. [email protected] eða í síma 899-9570.

Hér eru nokkrar myndir af makindalegum hryssum og folöldum sem eru í stóðhestahólfi á Lækjamóti.



Mikilvægt er að hafa gott eftirlit eftir öllum þeim hryssum sem eru nú í okkar umsjá. Þórir lítur hér eftir óköstuðu hryssunum en þar á meðal er Toppa frá Lækjamóti sem er fylfull við hinum unga albróður Vilmundar, Werner frá Feti.



Látum þetta gott heita að sinni.
Ræktunarkveðja frá Lækjamóti.
Flettingar í dag: 432
Gestir í dag: 99
Flettingar í gær: 1775
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 228106
Samtals gestir: 37089
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 11:35:07
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]