01.07.2010 16:14

Efnilegir!

Guðmari Hólm er hestabakterían í blóð borin. Á dögunum fór hann í sín fyrstu hestakaup þegar hann skipti svörtum fola fyrir skjóttan hest við Nökkva Þór Guðmarsson vin sinn. Þeir félagar eru góðir að leika sér saman enda báðir dolfallnir ungir hestamenn.


Hæstánægðir með hestakaupin                         Í hestaleik í kerrunni

 
Í leik með nýju hestana sína.

Í vikunni fóru fram reiðpróf hjá þeim sem voru á reiðkennaradeildinni í vetur og voru með hrausta hesta. Það er svo sem ekki til frásögu færandi fyrir okkur nema fyrir það að Guðmar fór á kostum. Þegar nemendur höfðu lokið sér af vildi Guðmar endilega líka fá að taka próf. Hann fer þá inn á völlinn og alveg upp á sitt einsdæmi hleypur hann reiðpróf líkt því sem reiðkennaraefnin höfðu nýlokið við. Hann hljóp stökk á hring, gerði krossgang og tók skeiðsprett. Þetta vakti mikla lukku í áhorfendabrekkunni og að loknu prófi fór Guðmar og ræddi við dómarana um árangurinn. Hér má sjá nokkrar myndir frá þessarri skemmtilegu uppákomu.

 
Krossgangur                                                               Hraðabreytingar


Stökk á hringnum                                      Guðmar þurfti að sjálfsögðu hliðvörð eins og aðrir


Sigurbjörn fer yfir prófið með Guðmari

En það er ekki bara Guðmar sem er efnilegur. Ísak Þórir er efnilegur markvörður og er nú farinn að æfa fótbolta með umf. Kormáki. Þar kynnist hann væntanlegum skólafélögum og nýtur sín vel.


Ísólfur, Vigdís, Ísak Þórir og Guðmar eru nú flutt frá Hólum á Lækjamót og flytja svo í nýja húsið þegar það er tilbúið. Sonja er komin í sumarfrí og Jónína Ósk frænka komin í sveitina þannig það er óhætt að segja að það sé líf og fjör á Lækjamóti.

Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 112
Flettingar í gær: 1775
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 228131
Samtals gestir: 37102
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 15:14:44
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]